Hvernig vinnur háreyðingin
Meðferðin byggir á sérhæfðum geisla sem tækið sendir inn í húðina. Þegar geislinn lendir í hárunum losnar orka geislans og breytist í hita. Hitinn losar hárin og eyðir þeim frumum sem viðhalda hárvexti. Taka þarf tillit til að hvert hár gengur í gegnum mismunandi vaxtarfasa og að meðferðin virkar best þegar hárin eru í vaxtarfasa. Á hverjum tíma er einungis hluti háranna í þeim fasa þar sem meðferðin virkar best. Þess vegna þarf að meðhöndla hvert svæði í nokkur skipti til þess að meðhöndla öll hárin í réttum vaxtarfasa. Það er nokkuð einstaklingsbundið hve margar meðferðir þarf og einnig getur verið munur á milli húðsvæða.
Háreyðing með lasertækni hefur verið notuð í mörg ár. Í dag er þessi tækni sú besta sem til er til að hamla óæskilegum hárvexti. Margar tegundir tækja eru notuð í þessum tilgangi og er tæknin í stöðugri þróun. Sameiginlegt fyrir alla háreyðingarmeðferð með lasertækjum er að þau virka langbest á dökk hár. Tæknin vinnur betur á grófum hárum en fíngerðum. Ljós eða grá hár svara meðferð mun síður en dökk eða svört hár. Líftími hvers hárs á líkamanum er mislangur. Hann er lengstur í hársverði stundum nokkur ár, en mun styttri annars staðar á líkamanum. Þegar líftími hvers hárs eða vaxtarfasi þess er á enda dettur það úr hársrótinni. Þá tekur við hvíldartími hársrótar sem er mismunandi milli líkamssvæða en getur verið nokkrir mánuðir. Lasermeðferð virkar einungis á hár sem eru í vaxtarfasa. Þar að auki eyðast aldrei allar hársrætur við eina lasermeðferð. Bæði þessi atriði valda því að yfirleitt þarf nokkrar eða margar meðferðir til að ná tilætlaðri háreyðingu. Misjafnt er milli einstaklinga hversu margar meðferðir þarf á hvert húðsvæði en algengt er 5-8 meðferðir. Háreyðing með laser er framkvæmd á 1-2 mánaða fresti. Því ljósari sem húðin er því betra og varast þarf sólbrúnku fyrir meðferðir. Meðferðin virkar í stuttu máli þannig að geislinn fer í gegn um húðina og hitar upp hárið. Hitinn í hárinu veldur því að hársekkurinn missir hæfni sína til að mynda hár. Þeir hársekkir sem eyðast svona mynda ekki hár aftur.
Hvernig fer meðferðin fram?
Heppilegast er að svæðið sem á að meðhöndla sé nýrakað. Síðan er meðferðarhausinn lagður á húðina og og hleypt af skoti. Flestir upplifa skotið eins og skammvinna hitatilfinningu í húðinni. Þegar skotinu er hleypt af má sjá ljósglampa líkt og þegar teknar eru myndir með leifturljósi. Ekki er að vænta árangurs strax eftir meðferðina.
Hvaða svæði er hægt að meðhöndla?
Hvaða húðsvæði sem er, nema í kringum augun. Algengustu svæði eru andlit, háls, holhendur, bikini svæði, leggir, brjóst og bak.
Hverju má ég búast við eftir meðferðina?
Strax efir meðferðina kemur fram vægur roði líkt og við vægan sólbruna. Einstaka sinnum vottar fyrir bjúg á meðferðarsvæðinu. Þessi einkenni ganga venjulega yfir á 30 mínútum til 24 klst. Ef sviði er í húðinni má bera kælipoka við húðina eða bera klalt gel, t.d. aloa vera á húðina.
Hversu fljótt næst árangur?
Ekki er að vænta árangurs strax eftir meðferðina, heldur líða yfirleitt 1-2 vikur þar til fer að draga úr hárvexti. í byrjun meðferðar má vænta að hárvöxtur aukist örlítið aftur rétt fyrir næstu meðferð. Þetta má ekki túlka sem a meðferðin hafi misheppnast, heldur eru hár sem verið hafa í hvíldarfasa að flytjast í vaxtarfasa og verða því sýnilegri.
Hentar sama tækið öllum?
Miklar framfarir hafa orðið á undanförnum árum varðandi tæki til háreyðingar. Laserdeild Húðlæknastöðvarinnar hefur ávallt kappkostað að bjóða upp á meðferð með besta fáanlega tækjabúnaði. Um þessar mundir höfum við yfir að ráða þremur mismunandi tækjum til háreyðingar og getum því ávallt valið tæki sem henta hár- og húðgerð hvers og eins.